9/11/2018

Selma dæmir í hönnunarkeppni ADC*E

Selma Rut Þorsteinsdóttir er hönnunarstjóri hjá Pipar\TBWA. En akkúrat núna er hún ekki að hanna neitt heldur er hún stödd í Barcelona með það verkefni fyrir höndum að dæma í 28. hönnunarkeppni Art Directors Club of Europe.

Art Directors Club of Europe eru, líkt og nafnið gefur tilkynna, samtök hönnunarstjóra í Evrópu. ADC*E-samtökin rekja sögu sína aftur til ársins 1990 og voru þá stofnuð af fagfólki innan hönnunargeirans, auglýsingastofum og álíka fylkingum um álfuna alla með það að leiðarljósi að skapa sameiginlegan vettvang og leiða saman ólíka strauma hönnuða í Evrópu. Tilgangurinn er viðkynning, blöndun og samvinna ólíkra menningaheima en síðast en ekki síst að hampa því sem vel er gert. Árlega stendur ADC*E fyrir ýmiskonar viðburðum, ráðstefnum og útgáfu efnis en hápunkturinn ár hvert er verðlaunahátíð þar sem rjóminn af hönnun álfunnar flýtur upp, þar sem allt hið besta keppir um hylli dómnefnda. Og þessar dómnefndir þarf vitanlega að manna.

Í ár standa hvorki fleiri né færri en fjórir Íslendingar dómaravaktina á hátíðinni og reynsluboltinn Selma er einn af þeim. Hún er vitanlega enginn byrjandi í faginu því hún hefur yfir 10 ára reynslu af ýmsum dómarastörfum hér heima og erlendis, hefur dæmt í keppnum fyrir FÍT, Effie Awards og setið í dómnefnd Lúðursins. Þá þekkir hún vel til allra hliða málsins og hefur sjálf margsinnis fengið viðurkenningar, tilnefningar og verðlaun fyrir sín hönnunarstörf.

Auk Selmu er það þau Einar Gylfason, Gunnar Þorvaldsson og Rán Flygenring sem verma dómarasætin þarna ytra, allt fólk sem hefur með réttu getið sér nafn fyrir störf sín gegnum árin. Þarna fer stórglæsilegur hópur sem ber fána íslenskrar hönnunar hátt á lofti og þótt segja megi að mögulega sé sama hvaðan gott kemur skyldum við þó fagna því sérstaklega að dómararnir fjórir skiptist til helminga eftir kynjum. Það er jú ekkert launungarmál að verulega hefur hallað á hlut kvenna í þessum geira gegnum áratugina og þannig er hrútleiðinleg staðreynd að minnast á að í stjórn ADC*E sitja 18 karlmenn en aðeins 4 konur. Dómarahlutfallið á hátíðinni er heldur skárra, 24 konur af 60 dómurum, en betur má ef duga skal og mikilvægt að róa öllum árum að því að rétta hlutfallið af á öllum póstum.

Það eru ekki bara dómararnir okkar sem eru fulltrúar Íslands á hátíðinni því fjölmörg íslensk hönnunarverk eru tilnefnd til verðlauna og alls er keppt í 6 flokkum. Við eigum því stóran þátt í ADC*E þetta árið og því ber að fagna. Jafnvel með freyðivínsglasi.

Til baka