16/8/2018

Skapandi endurvinnsla

Nú er haustið að bresta á og markaðs- og auglýsingafólk farið að tínast aftur í vinnuna á sama tíma og skólabörnin komast í rútínuna.

Þetta er góður tími til að velta fyrir sér hvað muni „trenda“ á næstu mánuðum, ekki bara í útliti heldur leið skilaboðanna til markaðarins. Hér á stofunni höfum við auðvitað legið yfir straumum og stefnum í hönnun og markaðsefni til að undirbúa okkur fyrir komandi vertíð. Við sjáum til dæmis hvað hefur verið að slá í gegn upp á síðkastið hjá stórum erlendum auglýsingastofum með því að skoða Cannes Lions verðlaunin frá því fyrr í sumar. Þar var áberandi hvernig „analog“ handverk var nýtt til að auglýsa tæknilega hluti sem má túlka sem einhvers konar tilraun til þess að nálgast og tengjast neytendum á persónulegri máta. Þá var samfélagsleg ábyrgð áberandi þema.

Auðvitað sækjum við líka innblástur beint úr íslensku samfélagi. Við höfum til dæmis tekið eftir því að svo virðist sem engin leið sé til að komast undan hringrás tískunnar og þeirri staðreynd að á um það bil 20 ára fresti dúkki upp fortíðardraugar sem við eldra fólkið fáum kannski grænar bólur yfir, meðan yngra fólkið aftur á móti heldur að það sé að finna upp hjólið. Við þekkjum þetta bæði í fatatískunni og einnig í tónlistarsköpun, þegar gömul lög eru „sömpluð“ og sett í nýjan búning. Fyrir mig sjálfa er nærtækasta dæmið útvíðu buxurnar sem dóttir mín fjárfesti í um daginn. Við erum komin þangað ... aftur. 

Þetta á að sjálfsögðu líka við um hönnunarbransann. Í dag er til dæmis verið að draga upp grafíska hönnun og útlit í sönnum „grunge“-anda, eins og sjá má hjá David Carson og lærisveinum, og pönkaðan ljótleika sem segir: „mér er alveg sama um það hvað þér finnst - þetta á að vera svona!“

Og enn og aftur dæsum við eldri. Var þetta ekki búið?

En þetta er aldrei búið. Hringur er alltaf hringur og ferningur er ferningur. Ekkert er nýtt undir sólinni. Við höfum tekið og endurunnið efni og betrumbætt það frá upphafi alda. Prófum okkur áfram, bætum og færum í stílinn og gerum nýjar tilraunir með eldri reglum og kannski brjótum við þær til að sjá hvað gerist. Þetta er allt saman gott og gilt í bland við annað. Það sem skiptir kannski meira máli er að gera betur með efnið en síðast, ekki staðna, heldur þróa það áfram.

Verum græn og endurvinnum á skapandi hátt (nema ekki Buffalo-skóna, þeir mega alveg gleymast í eitt skipti fyrir öll).

Selma Rut Þorsteinsdóttir, Creative Director

Til baka