15/1/2018

Styrktaraðilar þegja þunnu hljóði

Í fimmtudagspóstinum sem sendur var út fyrir sléttu ári síðan skrifuðum við um stórmót styrktaraðila þar sem við fórum yfir auglýsingaherferðirnar sem var byrjað að rúlla út vegna EM karla í fótbolta. Í sumar er annað stórmót framundan, EM kvenna í fótbolta sem fram fer í Hollandi dagana 16. júlí til 6. ágúst, og eins og flestir vita eru stelpurnar okkar fyrir löngu búnar að tryggja sér þátttökurétt. Okkur datt því í hug að það væri áhugavert að bera þessa tvo viðburði saman út frá sjónarhorni auglýsingaheimsins.

Opinberir styrktaraðilar EM 2017 eru að miklu leyti þeir sömu og voru styrktaraðilar á EM karla 2016, eða Adidas, Carlsberg, Coca-Cola, Continental, Hisense, Kia Motors, McDonald's, Socar og Turkish Airlines. Það virðist þó ekki stefna í sömu auglýsingaveislu og boðið var upp á fyrir mót síðasta árs því samkvæmt því sem við komumst næst hefur ekki ein einasta auglýsing styrktaraðila tengd mótinu verið frumsýnd. Vissulega er enn rúmur mánuður til stefnu og því ekki útilokað að fjölmargar langar og kostnaðarsamar auglýsingar séu í vinnslu í þessum skrifuðu orðum.

Heilu ári fyrir EM 2016 birti UEFA ítarleg gögn um efnahagsleg áhrif mótsins, áætlað áhorf og áætlaðar tekjur UEFA frá styrktaraðilum, en því miður virðast sambærilegar tölur ekki hafa verið gefnar út fyrir EM kvenna. Það gerir kannski enginn ráð fyrir að áhorf verði jafn mikið á EM kvenna og á EM karla en þó kemur á óvart hversu gífurlegur munur virðist vera á metnaði í auglýsingagerð fyrir mótin.

Ljósið í myrkrinu er að íslenskir styrktaraðilar hafa ekki setið auðum höndum. Til dæmis er ólíklegt að auglýsing Icelandair sem var frumsýnd í vor hafi farið framhjá nokkrum sem er með aðgang að sjónvarpi eða neti.

Til baka