11/8/2018

Vörumerki er verðmæti

Vörumerkið er verðmætasta eign fyrirtækisins og þarf að hlúa að því og byggja upp á réttan hátt. Í þeirri uppbyggingu er mikilvægt að allir séu samstíga í kynningarstarfi og annarri meðhöndlun vörumerkisins. Þetta er stór hluti af okkar vinnu hjá Pipar\TBWA og grunnurinn er lagður með aðferðafræði sem kallast Disruption®. 

Disruption® er eitt af því sem við höfum innleitt frá alþjóðlegu TBWA-keðjunni. Fjölmargar bækur hafa verið gefnar út um þessa aðferðafræði og við höfum unnið með hana í allmörg ár, en fyrsti hluti þessarar vinnu felst í að skoða markaðinn og samkeppnina fyrir viðkomandi vörumerki. Eftir að samkeppnin hefur verið skoðuð setjum við okkur markaðslega sýn í kjölfarið: Hverjir eru viðskiptavinirnir? Hvernig viljum við vera í framtíðinni? Og loks að gera eitthvað öðruvísi sem vekur athygli. Þegar þessar línur hafa verið lagðar skiptir öllu máli að skilaboðin frá fyrirtækinu séu í samræmi við vörumerki fyrirtækisins. 

Hér er hugmyndin mjög mikilvæg til að ná athygli markhópsins og koma skilaboðunum til skila og hún þarf að vera í takt við stefnu vörumerkisins. Alexander Nix frá Cambridge Analytics hélt því fram á ráðstefnu í Hörpu fyrir um ári síðan að tímar Mad Men væru liðnir og tímar Data Men teknir við. Nú snúist allt um stafræn gögn, tölfræði og upplýsingar og að auglýsingarnar sjálfar skipti engu máli. Ég get ekki tekið undir þetta með honum, en það er alveg ljóst að miðlasamsetningin hefur breyst mikið og tölfræði um árangur er aðgengilegri núna en nokkru sinni fyrr. Það er hægt að gera árangursgreiningar með markaðssetningu á netinu og stilla af herferðir á meðan þær eru í gangi. Þessi nýja hlið markaðssetningar verður sífellt fyrirferðarmeiri í okkar vinnu á Pipar\TBWA. 

Framtíðin er því mjög spennandi í auglýsingalandi og breytingarnar eru örar. Hvernig við höldum áfram að þróa og byggja upp vörumerki og á sama tíma að markaðssetja þau í flóknum heimi miðla er áskorun okkar næstu árin.

Guðmundur Pálsson, framkvæmdastjóri 

Viðtal við Guðmund í Viðskiptablaðinu 

Til baka