Þjónusta

Pipar\TBWA er ein stærsta auglýsingastofa landsins og veitir alhliða þjónustu á öllum sviðum auglýsinga og markaðssetningar.

Námskeið

Við höldum reglulega námskeið fyrir fyrirtæki þar sem við deilum sérþekkingu okkar, meðal annars á stafrænni markaðssetningu, notkun samfélagsmiðla og fleiru. Námskeiðin eru ýmist opin og auglýst að okkar frumkvæði eða sérpöntuð hjá okkur af viðskiptavinum.

Nánar

Markaðsráðgjöf

Við aðstoðum stór og smá fyrirtæki við alla þá þætti sem lúta að hverskyns markaðssetningu. Þá skiptir engu hvort um er að ræða óstofnuð fyrirtæki sem vantar nafn og stefnu eða sögufræg og stöndug stórfyrirtæki.

Markaðsráðgjafar okkar eru jafnframt tengiliðir við viðskiptavini, bera ábyrgð á því að koma hverju verkefni í höfn – og að til þeirra veljist rétta fólkið.

Stefnumótun/Disruption

Grunnurinn að allri markaðssetningu er skýr stefnumótun. Við búum yfir yfirgripsmikilli reynslu og þekkingu á því sviði. Okkar helsta stefnumótunartól köllum við Disruption en það er hugmyndafræði sem við fáum frá TBWA-keðjunni um allan heim og höfum beitt á jafnt stór fyrirtæki sem smærri verkefni. Disruption-vinna er frábær fjárfesting, en hún fer fram með þátttöku viðskiptavinar þar sem við greinum markaðinn, hefðirnar og tækifærin og endum með skýra sýn á hvert skal haldið. Sú sýn leggur svo grunn að öllu markaðsefni.

Nánar

Birtingaþjónusta

Birtingadeildin okkar, Pipar\MEDIA, veit allt um hvar best er að birta auglýsingar og herferðir svo þær nái til tilætlaðra markhópa og hvernig birtingafénu er best varið. Þar er byggt á yfirgripsmikilli tölfræðiþekkingu og rýnt í kannanir og gögn. Fylgst er náið með íslenskum auglýsingamarkaði, fjölmiðaneyslu, neytendahegðun og breytingum á hlutdeild auglýsingamarkaðarins. Þá hefur á síðustu misserum orðið til mikil sérhæfing í netmarkaðssetningu.

Nánar

Hönnun

Allt auglýsinga-, markaðs- og kynningarefni krefst hönnunar. Við búum að fjölbreyttum hópi grafískra hönnuða með mikla reynslu, þekkingu og listræna hæfileika. Þá gildir einu hvort verkefnið er að hanna eina blaðaauglýsingu eða heilu herferðirnar, umbúðir um nýja vöru, merkingar, sýningarbása, hreyfigrafík eða innréttingar. Já, innréttingar. Við eigum nefnilega líka iðnhönnuð.

Hugmyndavinna

Allt markaðsefni stendur og fellur með góðum hugmyndum. Auðvitað þurfa stefna og markmið að vera skýr, en á endanum þarf alltaf að vera til staðar góð hugmynd sem stýrir því hvernig hlutirnir eru framkvæmdir og hvernig við komum skilaboðum á framfæri. Á stofunni starfa hugmyndasmiðir hoknir af reynslu í bland við yngri og ferskari krafta. Burtséð frá titlum erum við þó á vissan hátt öll hugmyndasmiðir. Hugmynd getur kviknað hvar sem er á stofunni og oftast verða þær bestu til í náinni samvinnu margra aðila.

Textavinna

Hugmyndum og skilaboðum þarf að koma í orð. Við búum að afar ritfæru fólki með áratugareynslu af hverskyns textaskrifum og textalagfæringum, nákvæmni í prófarkalestri og næma tilfinningu fyrir íslensku máli. Auk þess sinna tveir enskumælandi textasmiðir eingöngu enskuskrifum og þýðingum.

Kvikmyndaframleiðsla

Kvikmyndaðar auglýsingar og myndbönd getum við framleitt sjálf frá a-ö, enda höfum við til þess allt sem þarf, framleiðanda, leikstjóra, klippara og grafíkera. Kvikmynduðu verkefnin eru jafn ólík og þau eru mörg og af mismunandi stærðargráðum. Í sumum tilvikum leitum við eftir samvinnu annarra framleiðslufyrirtækja, allt eftir eðli og umfangi verkefnis og veljum þá leikstjóra sem henta hverju verki fyrir sig.

Stafræn markaðssetning

Markaðssetning á netinu verður æ fyrirferðameiri og mikilvægari hluti af heildarmyndinni. Vefsíðugerð, samfélagsmiðlaumsjón, auglýsingar á Google, leitarvélabestun (SEO), efnismarkaðssetning, áhrifavaldamarkaðssetning, PPC, PCC, CRO-bestun, E-commerce, netfréttabréf, úttektir og greiningar ... við eigum sérfræðinga á öllum þessum sviðum. 2018 sameinuðust Pipar\TBWA og The Engine, en það fyrirtæki hefur lengi verið í fararbroddi í netmarkaðssetningu og unnið fjölda verkefna á því sviði hérlendis sem erlendis. Þá eigum við í nánu samstarfi við DAN, Digital Arts Network, sem er alþjóðlegt net sérfræðinga TBWA í stafrænni markaðssetningu.

Nánar

Almannatengsl

Margir þættir við kynningu á vöru, fyrirtæki eða viðburði falla utan hinnar eiginlegu auglýsingagerðar. Oft þarf að skipuleggja umfjöllun í fjölmiðlum, koma sér á framfæri, komast í viðtöl, skrifa fréttatilkynningar, koma þeim í réttar hendur, dreifa þeim á netinu o.s.frv. Við þekkjum fjölmiðlana út og inn og erum þaulvön að sjá um alla þessa þætti.